Skip to content

Ferðaþjónustan er lykilþáttur í uppbyggingu lífskjara okkar allra

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Kæru félagar.

Nú er rétt um eitt ár liðið síðan öllum sóttvarnartakmörkunum var aflétt á Íslandi og  viðspyrna ferðaþjónustunnar og þar með efnahagslífsins hófst. Það var í raun ævintýri líkast hversu hratt áfangastaðurinn Ísland náði sér á strik eftir faraldurinn og verður árið 2022 lengi í minnum haft hjá þeim sem stóðu í hringiðunni það ár. 

Þetta ár, og það álag sem var á greininni, varpaði góðu ljósi á allt það jákvæða sem hefur áunnist á síðastliðnum árum en afhjúpaði einnig það sem betur má fara og legið hafði í láginni árin á undan. Má þar tína margt til, en mér er þar efst í huga skortur á menntuðu og þjálfuðu starfsfólki. Þar er mikilla úrbóta þörf og þolir enga bið. 

Úrlausn mönnunarvandans og fjölmargar aðrar áskoranir bíða nú umfjöllunar í  aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til 2030,  sem unnin verður í samstarfi ráðuneytis ferðamála, SAF og Sambands sveitarfélaga á grundvelli stefnurammans sem ber yfirskriftina Leiðandi í sjálfbærni.

Árið 2023 stefnir í að verða minnistætt ár sömuleiðis. Sjaldan í sögunni hafa bókanir farið eins vel af stað og eru allar líkur á að nýting á þjónustu verði með besta móti á þessu ári. Ísland virðist, auk eigin verðleika, einnig njóta góðs af ástandinu í heiminum um þessar mundir og þá sérstaklega stríðinu í Úkraínu, sem hefur bitnað harkalega á mörgum áfangastöðum í Austur-Evrópu sem og miklum sumarhita sunnar í álfunni.

Þó að viðspyrnan hafi farið hraðar af stað en reiknað var með og flest ferðaþjónustufyrirtæki hægt og sígandi að ná vopnum sínum, þá eru margir sem standa í ferðaþjónusturekstri enn að glíma við afleiðingar hans á rekstrarreikningnum. Það er sömuleiðis ljóst að þar af leiðandi munu nýir kjarasamningar SA við helstu stéttarfélög á almenna markaðnum reynast mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum þungir í skauti.

Efnahagsástandið á Íslandi er um margt sérstakt um þessar mundir. Mikill kraftur er í hagkerfinu, atvinnuleysi nánast ekkert, verðbólga með hæsta móti og einkaneysla í hæstu hæðum. Krafan um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að ná tökum á verðbólgunni er hávær um þessar mundir. Freistingin til að skattleggja atvinnurekstur mikil og freistingin til að skattleggja ferðamenn, sem jú eru ekki kjósendur á Íslandi, örugglega ennþá meiri.

Það er hins vegar mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að stjórnvöld hamli ekki viðspyrnu ferðaþjónustu með ótímabærum og vanhugsuðum aðgerðum, hversu helgur sem tilgangurinn virðist vera. Umfram allt þurfa allar aðgerðir, sama hvaða nafni þær nefnast, að vera í samráði við atvinnugreinina.

Það er lykilþáttur í uppbyggingu lífskjara þjóðarinnar til framtíðar að rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og þar með samkeppnishæfni greinarinnar, alþjóðlega og innanlands séu hagfelld. Allar aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda sem vinna gegn hagfelldara starfsumhverfi greinarinnar vinna gegn hagvexti og bættum lífskjörum.

Framtíðin er björt og best ef við mótum hana öll saman.

0
Útflutningsverðmæti af ferðalögum (ma.kr.)
%
Atvinnuleysi
0
NPS skor Íslands
0
Fjöldi ferðamanna um KEF
0 %
Fjölgun frá fyrra ári
0
Gistinætur á hótelum

Innra starf

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar 2022 var haldinn í Reykjavík í mars og kosið var til stjórnar með rafrænum hætti. 

Stjórn samtakanna hittist á 13 formlegum fundum á starfsárinu, en stjórn hafði einnig með sér mikil óformleg samskipti vegna ýmissa mála í umfjöllun hjá Samtökunum og samstarfs við stjórnvöld. 

Nýir félagsmenn tóku sæti í fagnefndum á aðalfundi, en starf fagnefnda samtakanna er grundvallarstoð í starfi þeirra. Sömuleiðis hafa orðið breytingar á fulltrúum samtakanna í nefndum og ráðum á vegum ýmissa samstarfsaðila. Þá áttu SAF sem fyrr mikið og gott samstarf við skrifstofu SA um ýmis verkefni.

Á skrifstofu SAF störfuðu sex starfsmenn í 5,4 stöðugildum, en breytingar urðu á skrifstofunni á árinu þegar Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur samtakanna lét af störfum og Diljá Matthíasardóttir tók til starfa í hennar stað. 

 

Ferðagögn - mælaborð um áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög

Á árinu unnu Samtök ferðaþjónustunnar að og birtu  mælaborð sem sýnir á einum stað ýmis gögn umsvif ferðaþjónustu í nærsamfélaginu, m.a. gögn um atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélaga, framboð og nýtingu gistirýmis og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja eftir landshlutum og sveitarfélögum

Í mælaborðinu eru ýmis gögn um áhrif ferðaþjónustu á sveitarfélög um allt land, til dæmis um atvinnutekjur íbúa og skatttekjur sveitarfélaga. Vægi ferðaþjónustu er misjafnt eftir landshlutum og sveitarfélögum en ljóst er að atvinnugreinin er orðin traust stoð um allt land. 

Mælaborðið nýtist til dæmis opinberum aðilum, starfsfólki stjórnsýslu og stofnana, kjörnum fulltrúum á Alþingi og í sveitarstjórnum, sem og rekstraraðilum í ferðaþjónustu og fjárfestum. Á vefnum Ferðagögn.is er einnig haldið saman yfirliti um helstu gagnakeldur um ferðajónustu á einum stað.

Samskipti og samstarf
við stjórnvöld og hagaðila

Eins og ætíð áttu SAF í miklum samskiptum við stjórnvöld og stofnanir á árinu, enda eitt af lykilhlutverkum samtakanna. Samtökin veittu mikinn fjölda umsagna við frumvörp og reglugerðir ásamt því að vinna að úrlausn mála fyrir aðildarfyrirtæki gagnvart stofnunum og öðrum stjórnvöldum.

Samstarf SAF við systursamtök á Norðurlöndum og í Evrópu komst í eðlilegan farveg á ný á árinu eftir lægð í faraldrinum og mikilvægi þess sýndi sig enn á ný, nú ekki síst í samvinnu um miklar og stórum sambærilegar áskoranir ferðajónustuaðila í álfunni þegar áhersla stjórnvalda leitaði annað þegar viðspyrna feðrajónustu hófst.  

Á vegum SAF eru einnig unnar greiningar og efni um ýmis mál sem styðja og styrkja málflutning samtakanna á ýmsum vettvangi, og njóta samtökin þar góðrar samvinnu við ýmsar stofnanir og fyrirtæki. 

Viðburðir á vegum SAF

Samtökin stóðu fyrir fjölda félagsfunda, kynninga, upplýsingafunda á árinu og nýttu vel tækifærið sem gafst til viðburðahalds þegar samkomutakmörkunum var loks aflétt. 

Samtökin stóðu einnig fyrir viðburðum í góðu samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal Samtök atvinnulífsins, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Íslenska ferðaklasann, KPMG, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofu og Ferðamálastofu svo fáeinir séu nefndir. Þá nýttu samtökin möguleika á útsendingu viðburða á vefnum á langflestum viðburðum sínum til að auka möguleika allra félagsmanna til að fylgjast með og taka þátt í þeim.  

Aðalfundur SAF var haldinn á Grand Hótel Reykjavík í mars 2022 en Ferðaþjónustudagurinn var haldinn í Silfurbergi í Hörpu september þar sem fjallað var um ferðaþjónustu með tilliti til verðmætasköpunar og stöðunnar í hagkerfinu, áhrif greinarinnar á samfélagið og hvað þarf til að tryggja jákvæða uppbyggingu til framtíðar.

SAF í fjölmiðlum

Eitt mikilvægasta hlutverk Samtaka ferðaþjónustunnar er að vera talsmaður atvinnugreinarinnar út á við, taka virkan þátt í opinberri umræðu um greinina og koma á framfæri upplýsingum, t.d. um rekstraraðstæður fyrirtækja, þróun ferðaþjónustu og framtíðarsýn og mikilvægi hennar fyrir efnahag og lífskjör á Íslandi.

Stjórn og starfsfólk SAF vinnur að þessu hlutverki með afar mikilvægum stuðningi félagsmanna samtakanna sem efla málefnalega umræðu um ferðaþjónustuna, m.a. með greinum, viðtölum og þátttöku í umræðu á samfélagsmiðlum.

Hér má sjá yfirlit tekið saman af Cohn&Wolfe um hlut SAF í fjölmiðlaumfjöllun sem birtist á ýmsum miðlum á vefnum á starfsárinu 2022-2023.

0
Fjöldi aðildarfyrirtækja
0
Ný aðildarfyrirtæki 2022
0 %
Hlutfall SAF af SA
0
Sæti í fulltrúaráði SA
0
Sæti í stjórn SA
0
Fjöldi stöðugilda á skrifstofu