Ferðaþjónustuárið - Efnahagsmál
Aðlögunarhæfni, útsjónarsemi og seigla atvinnugreinarinnar reyndust svo sannarlega til staðar á árinu. Ljóst er að ferðaþjónustufyrirtæki leituðu allra leiða og tókst mörgum hverjum að ganga í gegnum hagræðingarferli og sameiningar til að lækka rekstrarkostnað og stuðla að skilvirkari rekstri. Rekstrartekjur háannar fóru þar að auki til dæmis fram úr væntingum hjá nærri þremur fyrirtækjum af fimm samkvæmt könnun meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu sem framkvæmd var af Ferðamálastofu (FMST)[1] í lok árs. Þó eiga langvarandi áhrif vegna farsóttarinnar og stríðsátakanna í Úkraínu enn eftir að koma í ljós og mikilvægt er að nefna að enn ríkir óvissa í atvinnugreininni um hversu vel muni ganga að manna störf yfir háönn þegar eftirspurn er mest. Yfir helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu töldu sig búa við skort á starfsfólki síðasta sumar samkvæmt fyrirtækjakönnun Gallup og FMST[2].
Viðspyrnu ferðaþjónustu má einna helst sjá á gögnum Hagstofu Íslands varðandi útflutningsverðmæti atvinnugreinarinnar síðastliðið ár borið saman við árið 2019, þar sem útflutningsverðmæti ferðaþjónustu voru 9,4% lægri árið 2022 en 2019 miðað við fast gengi ársins 2022[3]. Fjöldi erlendra ferðamanna er til landsins komu um Keflavíkurflugvöll síðastliðið ár samanborið við árið 2019 var jafnframt um 14,7% minni en jukust því útflutningsverðmæti á hvern ferðamann miðað við fyrir komu heimsfaraldurs. Í því samhengi má nefna að veiking krónunnar á seinni hluta ársins 2022 jók samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar að öðru óbreyttu. Þá þróun má einnig lesa af gögnum Rannsóknarseturs Verslunarinnar (RSV) um kortaveltu innanlands á hvern erlendan ferðamann, sem jókst frá árinu 2019.[4]
Í ritinu Fjármálastöðugleika 2023/1 er jafnframt varpað ljósi á viðspyrnu ferðaþjónustufyrirtækja en þar segir að „útlán kerfislegra mikilvægra banka (KMB) til ferðaþjónustufyrirtækja hafa lítið aukist frá miðju ári 2020. Útlánin jukust um 7% að nafnvirði á síðasta ári eða um 6,2% á föstu gengi og nema um 9% af heildarútlánum bankanna til viðskiptamanna og tæplega 20% af útlánum þeirra til fyrirtækja. Útlánagæði virðast fara batnandi en niðurfærslur útlána hafa farið lækkandi í hverjum fjórðungi allt frá fyrsta ársfjórðungi 2021. Sú þróun gefur til kynna að fjárhagsstaða ferðaþjónustufyrirtækja fari batnandi og að dregið hafi úr vanskilum[5]“.
Íslensk náttúra heldur áfram að laða að en 97% ferðamanna nefna náttúru landsins eða náttúrutengda afþreyingu þegar þeir voru beðnir um að tilgreina hvaða þættir hefðu haft áhrif á ákvörðun að Íslandsför, samkvæmt viðhorfskönnun FMST til erlendra ferðamanna[6] árið 2022. Einnig kemur þar fram að átta af hverjum tíu ferðamönnum svöruðu einnig að áhugi á norðurslóðum og umfjöllun í ýmsum miðlum hafi haft áhrif á ákvörðun sína að heimsækja Ísland. Þá svöruðu einn af tveimur ferðamönnum að auki að íslensk menning og Íslendingar almennt höfðu jafnframt mikil áhrif. Ljóst er að eldgosið við Meradali á árinu spilaði jafnframt stórt hlutverk á árinu með tilheyrandi landkynningu um allan heim. Talinn fjöldi á gosslóð eftir dögum fór hæst í 6.685 einstaklinga um miðjan ágúst árið 2022 samkvæmt talningu FMST[7].
Meðmælatryggð (e. Net Promoters Score, NPS) ferðamanna fyrir Ísland sem áfangastað mældist 82 árið 2022 sem er 2,5% hækkun frá því fyrir heimsfaraldur, aftur á móti er það 4,6% lækkun frá fyrra ári, NPS skor Íslands var 80 árið 2019[8]. Sá hluti ferðamanna sem tilbúnir eru að mæla með ferðaþjónustulandinu Íslandi á móti þeim hlut sem líklegri eru að mæla gegn því jókst þannig frá því fyrir heimsfaraldur. Meðmælatryggð (e. Net Promoters Score eða NPS) er sterkari mælikvarði en ánægja ferðamanna með hverja ferð því þar er einnig verið að mæla hverjir talsmenn áfangastaðarins eru þegar ánægja með ferð fór fram úr væntingum. Meðmæli ferðamanna sem áfangastað eru sterk vísbending um þá upplifun og gæði sem áfangastaðurinn stendur fyrir. Þar að auki var Ísland friðsælasta land heims árið 2022, líkt og síðastliðin 15 ár, samkvæmt Global Peace Index sem Institute for Economics and Peace birtir á ári hverju[9].
[1] Sjá https://www.ferdamalastofa.is/is/gogn/utgafur/nyjustu-utgafur/konnun-medal-ferdathjonustufyrirtaekja
[2] Sjá https://www.ferdamalastofa.is/static/files/ferdamalastofa/kannanir/2023/ferdmalastofa_fyrirtaekjakonnun_2022.pdf
[3] Athuga skal fast gengi nálgað með Gengisvísitölu meðalgengis – viðskiptavog þröng
[4] Sjá https://www.rsv.is/
[5] Sjá https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Fjarmalastodugleiki/FS/2023/Fjarmalastodugleiki_2023_1.pdf
[6] Sjá https://www.ferdamalastofa.is/static/files/ferdamalastofa/kannanir/2022/erlendir-ferdamenn-a-islandi-jul22.pdf og til dæmis https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/hvad-gerdu-erlendir-ferdamenn-i-fyrra
[7] Sjá https://www.maelabordferdathjonustunnar.is/is/gosslod-geldingadalir
[8] Sjá https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/hvad-gerdu-erlendir-ferdamenn-i-fyrra
[9] Sjá https://www.economicsandpeace.org/wp-content/uploads/2022/06/GPI-2022-web.pdf
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustu
Útflutningstekjur af erlendum ferðamönnum, hérlendis og erlendis, námu um 447 milljörðum króna á árinu 2022, það er 127% hækkun frá fyrra ári á föstu gengi ársins 2022. Farþegaflutningar með flugi skiluðu um 118 milljörðum króna í útflutningstekjur ferðaþjónustu árið 2022 og ferðalög um 329 milljörðum, hlutur farþegaflutninga með flugi var því um 26,5% og hlutur ferðalaga um 73,5%.
Útflutningsverðmæti af ferðalögum á hvern erlendan ferðamann námu um 194 þúsund krónum að meðaltali árið 2022 sem er 16,8% lækkun frá fyrra ári en um 11% aukning frá því fyrir heimsfaraldur árið 2019. Það er þegar miðað er við einfalt hlutfall útflutningstekna af ferðalögum af heildarfjölda erlendra ferðamanna er um Keflavíkurflugvöll fór, á föstu gengi ársins 2022.
Ferðamenn frá Bandaríkjunum stóðu fyrir stærstum hluta af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu árið 2022 eða um 38%, þar á eftir koma Bretar með um 9% og Þjóðverjar næstir með um 8%. Ljóst er að sterkt gengi Bandaríkjadals á móti krónu á liðnu ári skýrir að hluta mikla eftirspurn Bandaríkjamanna eftir ferðum hingað til lands, enda almennt hagstæðara en ella fyrir bandaríska ferðamenn að ferðast til Íslands á árinu.
Þá hafa komur asískra ferðamanna ekki náð fyrri hæðum þó þeim hafi nú fjölgað á undanförnum mánuðum á nýju ári. Má þar nefna að árið 2019 stóðu komur ferðamanna frá Asíu fyrir um 11,4% af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu miðað við 3,5% á liðnu ári enda var eingöngu létt á sóttvarnaraðgerðum í Kína snemma á þessu ári, það er árið 2023. Óvissa um eftirspurn ferðamanna frá Bretlandi á Íslandsferðum á síðastliðnu ári litaði einnig umræðuna að einhverju leyti hérlendis enda hafa breskir ferðamenn staðið fyrir stórum hluta af komu ferðamanna hingað til lands utan háannar. Ljóst er að hlutur Bretlands af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu lækkaði úr 12,2% árið 2019 í 8,7% 2022.
Þegar litið er til heildarútflutningsverðmæta þjóðarbúsins má sjá að hlutur tekna af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis af útflutningi vöru og þjónustu var um 26%, miðað við um 16,8% árið 2021, og hlutur ferðaþjónustu af heildarþjónustuútflutningi árið 2022 nam 60,7%. Hlutur útflutnings sjávarafurða nam um 20% og hlutur iðnaðarvara náði tæpum 33%. Hlutur ferðaþjónustu af útflutningsverðmætum þjóðarbúsins fór hæst árið 2017 og nam þá tæpum 42%. Hafa skal í huga að tekjur af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis er samlagning af tekjum af erlendum ferðamönnum, ferðalög, og tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega hvort sem það er til og frá Íslandi eða annarsstaðar[1].
[1] Sjá https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__utanrikisverslun__3_voruthjonusta__voruthjonusta/UTA05003.px
Þrátt fyrir mikinn vöxt útflutningsverðmæta ferðaþjónustu á milli ára nam viðskiptahalli þjóðarbúsins 58 milljörðum króna á árinu 2022 eða sem nemur 1,5% af landsframleiðslu. Það er annað árið í röð sem halli er á viðskiptum við útlönd[1]. Þar vegast á meiri afangur á þjónustujöfnuði og meiri halli á vöruskiptajöfnuði. Auknar útflutningstekjur af ferðaþjónustu á síðastliðnu ári lögðu sín lóð á vogarskálarnar en vöruskiptahalli hefur aukist verulega.
[1] Sjá https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Fjarmalastodugleiki/FS/2023/Fjarmalastodugleiki_2023_1.pdf
Ferðamenn frá Bandaríkjunum stóðu fyrir stærstum hluta af útflutningsverðmætum ferðaþjónustu árið 2022 eða um 38%. Ljóst er að sterkt gengi Bandaríkjadals á móti krónu á liðnu ári skýrir að hluta mikla eftirspurn Bandaríkjamanna eftir ferðum hingað til lands.
Fjöldi erlendra ferðamanna
Komur erlendra ferðamanna hingað til lands voru tæplega 1,7 milljónir á árinu 2022 ef miðað er við brottfarartölur um Keflavíkurflugvöll, samkvæmt talningu FMST og ISAVIA, sem er um 147% fjölgun frá fyrra ári. Við það bætist nokkur fjöldi farþega um Akureyrarflugvöll sem mikilvægt er að hafa í huga að ógleymdum erlendum ferðamönnum sem komu til landsins með ferjunni Norrænu sem og með skemmtiferðaskipum.
Flestar brottfarir árið 2022 voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, um 458 þúsund talsins eða rúmlega fjórðungur allra brottfara. Um er að ræða um 102% aukningu brottfara Bandaríkjamanna miðað við árið 2021 og álíka margar og árið 2019. Bretar voru í öðru sæti árið 2022 en brottfarir þeirra mældust um 230 þúsund talsins, það er um 321% aukning frá fyrra ári en um 12% fækkun frá árinu 2019. Þjóðverjar koma svo næstir, í þriðja sæti, tæplega 132 þúsund talsins sem er um 107% aukning miðað við árið 2021, en álíka margar og árið 2019.
Í alþjóðlegum samanburði þá hélt erlendum ferðamönnum á heimsvísu einnig áfram að fjölga á milli ára og nam fjöldi þeirra um 917 milljónum sem er um 102% aukning frá fyrra ári, samkvæmt Heimssamtökum ferðaþjónustu, UNWTO. Hins vegar eru erlendir ferðamenn um heiminn enn 37,4% færri en fyrir heimsfaraldur árið 2019 þegar þeir námu um 1.466 milljónum[1]. Það liggur augum uppi að Ísland tekur á móti litlum hlut af ferðamönnum heimsins en árið 2022 nam hlutur erlendra ferðamanna er hingað kom um 0,19% af heimsvísu.
[1] Sjá https://www.statista.com/statistics/209334/total-number-of-international-tourist-arrivals/
Gistinætur, framboð og nýting hótelherbergja
Samkvæmt bráðabirgðatölum um gistinætur árið 2022 voru þær á öllum tegundum skráðra gististaða um 8,8 milljónir, samanborið við fimm milljónir árið 2021 og jukust þær því um 77% á milli ára. Gistinætur Íslendinga stóðu fyrir um 21% gistinátta og voru um 1,9 milljónir sem er um 4% samdráttur frá fyrra ári. Þannig voru gistinætur erlendra ferðamanna um 79% eða um 6,9 milljón samanborið við 3,1 milljónir árið áður. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði í heimsfaraldrinum og hélt sú þróun áfram á síðasta ári, ef miðað er við breytingu frá árinu 2019. Jafnframt þegar litið er eingöngu til gistinátta Íslendinga á hótelum hér á landi voru þær til að mynda rúmlega tvöfalt fleiri á síðasta ári en árið 2019.
Meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna er nú 4,1 gistinætur á öllum tegundum skráðra gististaða og lækkar því um 7,8% frá fyrra ári. Miðað við einfalt hlutfall gistinátta á öllum tegundum skráðra gististaða, útlendingar, og komum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll. Hins vegar eru erlendir ferðamenn að meðaltali að dvelja lengur en fyrir komu heimsfaraldurs eða um 11,8% lengur en árið 2019.
Hlutfall þriggja fjölmennustu mánaða ársins af gistinóttum af heild nam um 47% árið 2022, samkvæmt aðferðafræði Heimssamtaka ferðaþjónustu, UNWTO. Samkvæmt aðferðafræði UNWTO er árstíðasveifla ferðaþjónustu gjarnan metin sem hlutfall þeirra þriggja mánaða ársins þar sem gistinætur erlendra ferðamanna eru mestar, á öllum tegundum skráðra gististaða viðkomandi áfangastaðar, af heildar komum ársins.
Í alþjóðlegum samanburði við okkar helstu nágrannalönd raða Finnland og Danmörk sér ofar á lista varðandi jöfnun árstíðasveiflu árið 2019, þar sem hlutfall þriggja fjölmennustu mánaða af heildar gistinóttum ársins var um 34% í Finnlandi og 43% í Danmörku. Aftur á móti eru Svíþjóð og Noregur eftirbátar Íslands með um 50% og 61% hlutfall árstíðasveiflu sama ár[1].
Á Íslandi hefur árstíðasveifla atvinnugreinarinnar þróast á hagstæðan hátt þar sem tekist hefur að jafna sveifluna úr um 65% árið 2009 í um 47% árið 2022 fyrir landið í heild. Árið 2019 var árstíðarsveifla Íslands komin niður í um 42% og hefur því gríðarlega miklum árangri verið náð. Aftur á móti þegar árstíðarsveiflan er skoðuð eftir landssvæðum, höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, kemur fram önnur mynd. Árstíðasveiflan er ennþá töluverð á landsbyggðinni en er augljóslega misjöfn eftir viðkomandi landshlutum og sveitarfélögum. Höfuðborgarsvæðinu hefur tekist að jafna hlut allra mánaða ársins í gestakomum og gistinóttum ferðamanna.
Dreifing ferðamanna yfir árið og um landið er lykilatriði fyrir sjálfbærri þróun íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar. Árið 2022 stóð landsbyggðin fyrir 46,1% af gistinóttum á hótelum, sem opin eru allt árið um kring, miðað við um 32% árið 2009.
[1] Sjá https://www.unwto.org/tourism-data/global-and-regional-tourism-performance og https://hagstofa.is/talnaefni/atvinnuvegir/ferdathjonusta/gisting/
Meðalfjöldi herbergja á hótelum nam 11.166 árið 2022, eða um 26,7% fjölgun frá fyrra ári. Ljóst er að fjöldi hótelherbergja setur ákveðnar hömlur á vöxt atvinnugreinarinnar, sér í lagi á landsbyggðinni, en einnig varpar sá fjöldi ljósi á hugsanleg tækifæri til aukinnar fjárfestingar á sama tíma. Árið 2022 stóðu herbergi á hótelum á landsbyggðinni fyrir um 52% af meðalfjölda hótelherbergja á landinu öllu sem er um 9,7% lækkun frá fyrra ári. „Ljóst er að ferðaþjónusta er einn af vaxtarbroddum atvinnulífs á landsbyggðinni þar sem hún byggir á notkun staðbundinna framleiðsluþátta sem ekki er hægt að flytja úr stað, án náttúruhamfara. Jafnframt er ferðaþjónustan ein af fáum atvinnugreinum þar sem landsbyggðin hefur enn raunverulega hlutfallslega yfirburði vegna landfræðilegra aðstæðna“ líkt og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, nefndi á ráðstefnu ráðherra ferðamála um þjóðhagslegt mikilvægi atvinnugreinarinnar í mars 2023.
Meðalherbergjanýting á hótelum var 62,9% árið 2022 og jókst um 61,3% frá fyrra ári. Nýting herbergja á hótelum var hæst mæld árið 2017 þegar hún náði að meðaltali 72,1% yfir árið. Enn er því verk að vinna að ná hæstu hæðum nýtingar á hótelum þó miklum árangri hefur nú þegar verið náð eftir komu heimsfaraldurs.
Nýting herbergja á hótelum var með mesta móti í sögulegu samhengi síðastliðið sumar þó meðaltal ársins sé við 2015 gildi. September og Október mánuðir náðu jafnframt nýjum hæðum árið 2022 þar sem nýting hótelherbergja var 78,3% og 73,1%. Augljóst er að aukin nýting herbergja á hótelum, sér í lagi utan háannar, veldur því að gististaðir verða að vænlegri fjárfestingarkosti en ella og því til mikils að vinna að auka nýtingu á gististöðum.
Erlend kortavelta
Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam um 248,3 milljörðum króna árið 2022 samkvæmt RSV og jókst að raunvirði um 89,5%[1] frá fyrra ári, það er miðað við fast verðlag ársins 2022 nálgað með vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Upplýsingar um kortaveltu samkvæmt RSV eru eingöngu fengnar frá innlendum færsluhirðingaraðilum og vanmetur RSV því heildarkortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi[2], að einhverju leyti. Á síðustu misserum hafa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki fært í aukana að hætta viðskiptum við innlenda færsluhirða og leitað út fyrir landssteinanna[3]. Ljóst er að fleiri annmarkar eru á gögnum RSV um erlenda kortaveltu hérlendis, aftur á móti gefur erlend kortavelta eftir útgjaldaliðum ákveðna vísbendingu um neysluhegðun erlendra ferðamanna á Íslandi á síðastliðnu ári. Þar sem ferðaþjónustureikningar Hagstofunnar verða ekki uppfærðir að fullu fyrir síðastliðið ár fyrr en í júní árið 2023[4].
Framlag undirliða erlendrar kortaveltu samanstendur einna helst af gistiþjónustu, verslun, veitingaþjónustu og annarri þjónustu tengdri farþegaflutningum, bílaleigum og tengdum gjöldum eða um 68,5% af erlendri kortaveltu samtals. Gistiþjónusta er um 24,8% og þjónusta bílaleiga og tengd gjöld 11,8%. Samkvæmt viðhorfskönnun FMST svöruðu þrír af hverjum fimm að bílaleigubíll væri aðalferðamátinn á meðan Íslandsför stóð og um fimmtungur kaus skipulagðar rútuferðir. Athuga skal að útgjaldaliðurinn verslun samanstendur af stórmörkuðum og dagvöruverslunum, fataverslun, gjafa- og minjagripaverslun, tollfrjáls verslun og annarri verslun og hlutur gjafa- og minjagripaverslunar af verslun, alls er um 12,8%. Könnun FMST skoðar einnig hvaða afþreyingu ferðamenn voru að nýta og varpar þannig jafnframt ljósi á hegðun ferðamanna hérlendis. Þar kom í ljós að 57% fóru í náttúrubað, 38% í heilsulind eða dekurmeðferð, 33% á söfn, 31% í skoðunarferð með rútu, 25% í skipulagða göngu eða fjallaferð, 24% í sund, 23% í hvalaskoðun og 21% í jöklagöngu eða klifur[5].
[1] Sjá https://www.rsv.is/post/kortaveltarsv_2022?utm_medium=email&utm_campaign=Kortavelta%20RSV%20-%202022&utm_content=Kortavelta%20RSV%20-%202022+CID_10f2ebbda9fd8cb925daa953c85be434&utm_source=Email%20marketing%20software&utm_term=Sj%20nnar%20hr og til dæmis https://infogram.com/1pw2g3zl6q117ltv2nn55lzgkjs91gv2rk6?live
[2] Sjá https://380c5f41-4a32-4365-b8e2-0a98e6b36ab0.filesusr.com/ugd/147c94_968f0a4863f04338afad38ea99786182.pdf
[3] Sjá frekari umfjöllun hjá FMST https://www.ferdamalastofa.is/is/rannsoknir/greiningar/tekjuthroun-ferdathjonustu-fyrstu-tiu-manudi-2022
[4] Sjá https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/birtingaraaetlun/
[5] Sjá https://www.ferdamalastofa.is/is/um-ferdamalastofu/frettir/hvad-gerdu-erlendir-ferdamenn-i-fyrra
Raungengi á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar
Raungengi íslensku krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar hækkaði um 7% á milli ára. Í alþjóðlegum samanburði er launakostnaður á Íslandi hár og íþyngjandi fyrir fyrirtæki, sér í lagi ferðaþjónustufyrirtæki. Raungengi er skilgreint sem hlutfallsleg þróun verðlags eða launakostnaðar á framleidda einingu í heimalandi annars vegar og viðskiptalöndunum hins vegar frá tilteknu grunnári og mælt í sama gjaldmiðli[1]. Samkeppnisstaða innlendra útflutningsatvinnugreina versnaði þar með þó nokkuð á milli ára. Sú staðreynd að launakostnaður sé að hækka meira hér á landi en í helstu viðskiptalöndum er ekki ný á nálinni. Á Íslandi hefur það almennt verið svo að laun hérlendis hækki langt umfram laun í okkar helstu samkeppnislöndum og jafnframt umfram það sem samrýmist svigrúmi til launahækkana, það er samtölu verðbólgumarkmiðs og framleiðnivaxtar, í landinu. Að öðru óbreyttu dregur þessi staðreynd augljóslega úr samkeppnishæfni útflutningsgreina hér á landi og leggur stein í götu reksturs fyrirtækja í ferðaþjónustu.
[1] Sjá https://sedlabanki.is/library/Fylgiskjol/Hagtolur/Markadir/Raungengi/L%c3%bdsig%c3%b6gn%20fyrir%20raungengi_2021.pdf
Launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu
Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja. Ísland er hálaunaland sem gerir það að verkum að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Það liggur því augum uppi að atvinnugreinar líkt og ferðaþjónusta, sem vinnuaflsfrekar eru, eiga erfitt uppdráttar í löndum þar sem launakostnaður er hár líkt og raun ber vitni á Íslandi. Enda verða fyrirtæki í ferðaþjónustu að geta boðið samkeppnishæf laun til þess að fá fólk vilji starfa í atvinnugreininni. Í þeirri stöðu má því segja að einn helsti valkostur atvinnugreinarinnar sé þannig aukin skilvirkni með frekari tæknivæðingu, íslensk ferðaþjónusta þarf að vera skilvirkari en atvinnugreinin annars staðar í heiminum vegna þessa, íþyngjandi launakostnaðar. Aukin tæknivæðing getur sannarlega leitt til sársaukafullrar fækkunar á ákveðnum störfum í ferðaþjónustu en að sama skapi getur þá skapast svigrúm innan atvinnugreinarinnar, með aukinni framleiðni, til að greiða enn hærri laun en ella.
Tækifæri er fyrir ferðaþjónustu að læra af sjávarútvegi þegar kemur að því að skapa umhverfi sem verður þess valdandi að aukin tæknivæðing spretti enn frekar upp innan atvinnugreinarinnar. Ljóst er að fyrir komu skipulagsbreytinga í íslenskum sjávarútvegi stóð atvinnugreinin í allt öðrum sporum en nú og var lengi vel viðvarandi tap á veiðum og vinnslu. Aftur á móti, með skipulagsbreytingunum, kom sá fyrirsjáanleiki sem nauðsynlegur var til þess að tryggja aukna arðsemi og sjálfbærni atvinnugreinarinnar til framtíðar. Íslenskri ferðaþjónustu hefur gengið vel hingað til og má ekki gleyma þeirri staðreynd að atvinnugreinin er enn ung að árum sínum. Allar atvinnugreinar ganga í gegnum þroskaferli og hefur ferðaþjónusta öll spil í hendi sér til að viðhalda hlutverki sínu sem traust stoð í gjaldeyris- og verðmætasköpun þjóðarbúsins til framtíðar. Ganga þarf enn lengra í að skapa þann fyrirsjáanleika sem íslensk ferðaþjónustufyrirtæki þurfa til þess að svigrúm skapist til frekari fjárfestinga í aukinni tækni og uppbyggingu áfangastaða. Stjórnvöld og atvinnugreinin verða nú að spila rétt úr sinni stöðu, taka þarf stórar og skynsamlegar ákvarðanir varðandi aðgangsstýringu á náttúruauðlindum, skattheimtu og samkeppnishæfni ferðaþjónustufyrirtækja. Ljóst er að Róm var ekki byggð á einum degi og það er langhlaup að byggja upp hagkvæmni og sjálfbærni í auðlindanýtingu.
Tölfræði varðandi laun í ferðaþjónustu er, vægt til orða tekið, ábótavant, hvort sem um er að ræða í formi birtra launavísitalna eða staðgreiðsluskyldra launagreiðslna. Hagstofan birtir staðgreiðsluskyldar launagreiðslur eftir atvinnugreinahópum, fjölda launagreiðenda og fjölda starfandi einstaklinga þeirra hópa. Ýmsir vankantar eru á þeim gögnum fyrir samanburð milli atvinnugreina og sá helsti er viðkemur ferðaþjónustu er sá að þau gögn taka ekki tillit til fjölda vinnustunda eða starfa þar sem fjöldi einstaklinga er talning á hverjum þeim sem fær greidd laun frá launagreiðenda. Þannig er ekki gerður greinarmunur á hvort viðkomandi sé í fullu starfi eða hlutastarfi og ekkert lágmarksviðmið er á launagreiðslum. Hver einstaklingur sem fær launagreiðslur telst því einu sinni óháð launaupphæð[1] og ljóst að allur samanburður ferðaþjónustu við aðrar atvinnugreinar á staðgreiðsluskyldum launagreiðslum á mann verður þar af leiðandi, að einhverju leyti, bjagaður. Mörgum þætti eðlilegra að reikna launagreiðslur á hvert starf á mánuði eftir hinum mismunandi atvinnugreinum og bera þær saman.
Hlutur einkennandi greina ferðaþjónustu var 10,7% af öllum staðgreiðsluskyldum launagreiðslum árið 2022 og var hlutur ferðaþjónustu 13,6% af heildarfjölda starfandi einstaklinga sama ár. Hlutur landsbyggðarinnar af staðgreiðsluskyldum launagreiðslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu nam 42% árið 2022 flokkað eftir búsetu launþega og hefur hlutfallið aukist úr 29% árið 2008. Álíka sögu er að segja af hlutfalli landsbyggðarinnar af fjölda starfandi einstaklinga en var hlutur landsbyggðarinnar um 44% árið 2022 á þann mælikvarða. Þessi þróun kemur lítt á óvart enda styður ferðaþjónusta við uppbyggingu, tækifæri til nýsköpunar, sérhæfingar og aukinnar fjölbreytni atvinnutækifæra á landinu öllu, sérstaklega á landsbyggðinni.
[1] Sjá https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Atvinnuvegir/Atvinnuvegir__fyrirtaeki__launakostnadur__launagreidslur/TEK02004.px
Staðgreiðsluskyldar greiðslur á mann á mánuði, á föstu verðlagi ársins 2022, miðað við vísitölu neysluverðs, voru um 78% af meðaltali allra atvinnugreina árið 2022 eða um 545 þúsund krónur. Það er miðað við einfalt meðaltal hlutfalls upphæðar staðgreiðsluskyldra greiðslna og fjölda starfandi einstaklinga. Frá árinu 2008 hafa greiðslur á mann á mánuði aukist um 33% í einkennandi greinum ferðaþjónustu, hraðar en meðaltal allra atvinnugreina sem hefur hækkað um 13,4% á sama tíma, miðað við fast verðlag ársins 2022.
Mannauður íslenskrar ferðaþjónustu
Fjöldi einstaklinga sem störfuðu í einkennandi greinum ferðaþjónustu samkvæmt staðgreiðsluskyldum launagreiðslum nam 27.539 árið 2022. Aftur á móti, ef litið er til fjölda starfandi í aðalstarfi samkvæmt skrám störfuðu 25.770 einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu á liðnu ári. Þar sem hver einstaklingur er einungis talinn einu sinni í hverjum mánuði eftir aðalstarfi einstaklings, og er það skilgreint sem það starf sem skilaði hæstu tekjum í hverjum mánuði[1].
[1] Sjá https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__vinnumarkadur__vinnuaflskraargogn/VIN10022.px/table/tableViewLayout1/?rxid=7025c1b1-dc6c-4831-929a-db4c245b96fe
Mikið hefur verið rætt um hlutverk erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Hlutur starfsfólks með erlendan bakgrunn af fjölda starfandi í aðalstarfi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu hefur tekið að aukast á ný árið 2022 og nam 40,5%. Hlutur starfsfólks sem er af erlendu bergi brotið af öllum starfandi einstaklingum samkvæmt skrám tók sömuleiðis að hækka og er um 21% árið 2022.
Samkvæmt nýlegri könnun Samtaka ferðaþjónustunnar á meðal ferðaþjónustufyrirtækja kom í ljós að 45% fyrirtækja er með yfir 40% starfsfólks af erlendu bergi brotið og um 42% fyrirtækjanna telja jafnframt skort vera á starfsfólki nú. Þær niðurstöður fara heim og saman við könnun Gallup og FMST varðandi háönn síðastliðins árs. Sjá má af tölfræði Hagstofu Íslands að hlutur lausra starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu af heildarfjölda starfa á fjórða ársfjórðungi ársins 2022 nam 4,1% miðað við 2,6% hjá atvinnugreinum, alls. Aftur á móti, fyrir komu heimsfaraldurs var þessu öfugt farið og var hlutur lausra starfa í ferðaþjónustu um 0,7% á fjórða ársfjórðungi árið 2019 og töluvert lægri en hjá atvinnugreinum, alls.
Hlutur starfsfólks með erlendan bakgrunn af fjölda starfandi í aðalstarfi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu hefur tekið að aukast á ný árið 2022 og nam 40,5%.
Laus störf gefa vísbendingu um hvernig eftirspurn eftir starfsfólki og framboð af störfum er að þróast. Það er til dæmis að einhverju leyti hægt að túlka mælikvarðann með þeim hætti að ef lausum störfum fjölgar þá getur meðal annars verið að laus störf séu til staðar sem atvinnulausir eru einfaldlega ekki að leita að, fyrirtækjum vanti starfsfólk sem einfaldlega er ekki til hérlendis eða að bótakerfið sé að letja fólk til þess að taka þau störf sem laus eru. Sögulega séð hefur verið tiltölulega lítið atvinnuleysi á Íslandi og við sem þjóð þurft að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli. Það hefur augljóslega ekki breyst og hefur viðvarandi skortur á vinnuafli verið þung áskorun fyrir stærstu útflutningsgreinar þjóðarbúsins, sér í lagi ferðaþjónustu, síðastliðin ár.
Sjálfbærni til framtíðar
Segja má að íslensk ferðaþjónusta standi á ákveðnum tímamótum eftir öran vöxt á síðastliðnum áratug og komu heimsfaraldurs. Eigi ferðaþjónusta að spila stórt hlutverk í gjaldeyris- og verðmætasköpun þjóðarbúsins liggur fyrir að feta þarf ótroðnar slóðir, efla þarf greinina á grundvelli skýrra markmiða og aukins fyrirsjáanleika. Atvinnugreinin þarf í auknum mæli að sníða sér stakk eftir vexti með áherslu á arðsemi fremur en fjölda þannig að verðmætasköpun ferðaþjónustu verði drifin áfram af auknum verðmætum á hvern ferðamann í stað aukins fjölda þeirra. Í þessu felst meðal annars að fjölga sérhæfðum störfum í ferðaþjónustu og að dreifa álagi yfir árið og um landið og ná þannig fram betri nýtingu framleiðsluþátta. Áhersla á gæði umfram magn mun koma til með að skipta sköpum, enda er það öllum ljóst að takmarkaðar náttúruauðlindir setja vexti ferðaþjónustu skorður líkt og sjávarútvegi.
Það er hverju orði sannara sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sagði jafnframt á Ferðaþjónustudeginum 2022: „Heppilegt er að íslensk ferðaþjónusta vaxi nú á sama hraða og hagkerfið í heild. Ekki er hægt að gera ráð fyrir því að ferðaþjónusta verði leiðandi í hagvexti eins og hún var, það eru einfaldlega of miklar kröfur á hendur greinarinnar en Ísland er og verður alltaf ferðaþjónustuland“. Eitt sinn var sjávarútvegur stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og tók ferðaþjónusta við því kefli. Hugverk munu nú að öllum líkindum verða leiðandi og halda áfram að teygja anga sína, í auknum mæli, til allra atvinnugreina, þar á meðal ferðaþjónustu. Aukinn fjölbreytileiki atvinnugreina er jákvæður en samspil þeirra lykilatriði. Og skynsamlegt er að byggja upp hagkerfi á fjölbreyttum stoðum gjaldeyris- og verðmætasköpunar, enda koma efnahagsleg áföll ekki alltaf niður á sama stað.
Það er hagmunamál þjóðarbúsins alls að verja rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu til lengri tíma, örfyrirtækja jafnt sem stórra fyrirtækja, og þann viðsnúning sem greininni hefur nú þegar tekist að ná eftir heimsfaraldurinn. Aukin samkeppnishæfni er ein meginforsenda sjálfbærrar framtíðar íslenskrar ferðaþjónustu, hana ber að tryggja.