Samskipti við stjórnvöld
Umsagnir um opinber mál
Samtök ferðaþjónustunnar áttu að venju í miklum samskiptum við stjórnvöld á starfsároinu. Samskiptin hafa m.a. farið fram með formlegum erindum og formlegum og óformlegum fundahöldum, t.d. með erindisrekstri fyrir félagsmenn gagnvart ráðuneytum og stofnunum. Þá eru ótalin ýmis formleg og óformleg samskipti starfsfólks og stjórnar SAF við stjórnmálamenn og stjórnsýsluna.
Mikilvægur þáttur í formlegum samskiptum SAF við stjórnkerfið er að samtökin veita umsagnir um fjölmörg opinber mál árlega. Umsagnir sem SAF veita um mál eru aðgengilegar á vef Alþingis, á Samráðsgátt stjórnvalda og á vefsvæðum stofnana og sveitarfélaga.
Umsagnir sem veittar voru á starfsárinu eru einnig aðgengilegar á vef SAF. Alls sendu SAF inn, í eigin nafni og í samstarfi við önnur samtök, 40 umsagnir til stjórnvalda um frumvörp, reglugerðir, stefnur og fleira. Sjónarmiðum SAF um hin ýmsu málefni hefur því verið komið til skila til stjórnvalda.
Erlent samstarf
Samstarf við systursamtök í Evrópu og á Norðurlöndum
Hluti af starfi Samtaka ferðaþjónustunnar er að bera saman bækur sínar um starfsumhverfi greinarinnar við systursamtök á sviði ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Samskipti af þessu tagi eru afar gagnleg þar sem upplýsingar sem þar koma fram nýtast í samræðum og rökfærslum um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hér á landi.
Nordisk besöksnäring
SAF eru aðilar að formlegum vettvangi hótel- og veitingasamtaka á Norðurlöndum, Nordisk Besöksnäring. Þar eiga sér stað umræður um rekstrarumhverfi fyrirtækja, vinnumarkaðsumræður, sjálfbærnistefna o.fl sem SAF geta nýtt sér í samtölum við stjórnvöld. í kjölfar Covid hafa formlegir fundir verið teknir upp að nýju. Framkvæmdastjóri SAF sótti fundi samtakanna í Stokkhólmi í október 2022 og í Finnlandi í mars 2023
HOTREC
SAF eru formlegur aðili að evrópsku hótel- og veitingasamtökunum HOTREC. Formlegar ársfundasamkomur hafa Hotrec hafa verið teknar upp að nýju eftir að takmörkunum vegna Covid var aflétt. Formaður gisitstaðanefndar og fulltrúi SAF fóru á vor ársfundinn sem haldinn var í Prag í apríl 2022 og framkvæmdastjóri og formaður gististaðanefndar sóttu svo ársfund að hausti sem haldinn var í Stokkhólmi í október 2022. SAF hafa verið i töluverðum samskiptum við HOTREC vegna upplýsinga og samanburðar á aðgerðum Evrópulandanna og nýtt þau gögn í samskiptum við stjórnvöld hér á landi.
Nordisk persontransport
SAF eiga miklum samskiptum við systursamtök innan hópbifreiðageirans á Norðurlöndum. Að jafnaði hittast samsökin tvisvar á ári og var þráðurinn tekinn upp að nýju eftir heimsfaraldur árið 2022. Verkefnastjórar SAF sóttu fundina tvo sem voru í Stokkhómi í júní 2022 og í Osló í Janúar 2023. Þessi samskipti eru afar mikilvæg við að tryggja að umhverfi í rekstri hópbifreiða hér á landi sé í samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Þannig er t.d. talsveð umræða i hópnum um þrýsting á stjórnvöld á Norðurlöndunum að setja skýrar reglur um gestflutninga með það að markmiði að útrýma félagslegum undirboðum.
NordPass – Nordisk Passagerarbåt Förening
Samtök ferðaþjónustunnar eru aðilar að samtökum útgerða með farþegaskip og -báta (Nordpass). Samtökin hittast á hverju hausti en vegna aðstæðna hefur ekki ferið fundað síðan árið 2019. Gert er ráð fyrir fundi í Danmörku síðar á árinu 2023. SAF hafaátt í talsverðum óformlegum samskiptum við aðila innan Nordpass og leitað upplýsinga um fyrirkomulag ferjusiglinga, mönnun, öryggisstjórnun, búnað o.fl. sem nýst hafa í samræðum og samskiptum við Samgöngustofu um fyrirkomulag ferjusiglinga hér við land.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Efling hæfni, menntunar og gæða í ferðaþjónustu á forsendum atvinnugreinarinnar
Á undanförnum árum hafa SAF látið hæfni, mennta- og fræðslumál sig miklu máli varða, enda er hæfni stjórnenda og starfsmanna forsenda aukinnar verðmætasköpunar í greininni. Ferðaþjónustan hefur orðið fyrir miklum skaða af völdum faraldursins og mikilvægt er að viðhalda og bæta þekkingu og hæfni í greininni.
SAF eiga mikið og gott samstarf í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar en SAF hafa leitt þá vinnu frá árinu 2017 í stýrihóp Hæfnisetursins sem vistað er sem verkefni hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til ársins 2023. Fjölbreyttur hópur hagaðila úr fyrirtækjum innan SAF og samstarfsaðila kemur að starfi Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, auk samstarfs við fræðsluaðila, og skóla víða um land.
Á vef Hæfnisetursins má sjá helstu verkefni sem unnið hefur verið að í fræðslumálum greinarinnar á árinu og nálgast verkfærakistu fyrir ferðaþjónustuaðila.
IÐAN fræðslusetur
Samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina
Matvæla- og veitingasvið IÐUNNAR er samstarfsvettvangur fyrirtækja og starfsmanna á sviði hótel- og matvælagreina. Aðild að matvæla- og veitingasviði eiga SAF, Samtök iðnaðarins (SI) og MATVÍS. Hlutverk matvæla- og veitingasviðs er að stuðla að bættri menntun og hæfni starfsmanna í hótel- og matvælagreinum og vinna að auknum gæðum og framleiðni fyrirtækjanna sem leiðir til betri samkeppnisstöðu þeirra og bættra lífskjara.
SAF eiga í samstarfi um ýmis verkefni með IÐUNNI. SAF tilnefnda fulltrúa í stjórn og fagráð iðunnar. Meðal verkefna sem samstarf er um er m.a. að tryggja framboð námskeiða, eftirfylgni með fagnámi matvælagreina, eftirfylgni með raunfærnimati í matvæla og veitingagreinum, framþróun í námsframboði í matvælagreinum og öðrum faggreinum ferðaþjónustu o.fl.
Félagsmenn fá um 75% afslátt af námskeiðum matvæla- og veitingasviðs IÐUNNAR og reglur um endurgreiðslur og styrki til félagsmanna er að finna á vef IÐUNNAR.